Þjónustuskilmálar
Moodup veitir hugbúnaðarþjónustu sem mælir starfsánægju og áhrifaþætti hennar. Eftirfarandi skilmálar gilda um þjónustuna:
Bakgrunnur
Með því að nota þjónustu Moodup ehf. (hér eftir Moodup) samþykkir vinnustaður (hér eftir verkkaupi) eftirfarandi skilmála. Sá sem samþykkir skilmála þessa fyrir hönd verkkaupa staðfestir að viðkomandi hafi umboð til þess.
Þjónustan
- Þjónustan innifelur útsendingarkerfi fyrir kannanir, verkfæri til að hafa umsjón með vinnustaðnum, starfsfólki og notendum, og mælaborð þar sem hægt er að nálgast niðurstöður mælinga auk nafnlausrar endurgjafar frá starfsfólki.
- Moodup skal á gildistíma þjónustusamnings og þar til honum lýkur veita verkkaupa aðgang að framangreindri þjónustu.
- Moodup skal sinna nauðsynlegu tæknilegu viðhaldi og uppfærslum til að tryggja að þjónustan virki með fullnægjandi hætti.
- Moodup skal tryggja að öryggi þjónustunnar og þeirra gagna sem meðhöndluð eru sé fullnægjandi frá tæknilegu sjónarhorni. Nánari upplýsingar um þær ráðstafanir sem Moodup hefur gert til að tryggja öryggi gagna eru aðgengilegar á slóðinni moodup.is/gagnaoryggi.
- Moodup skal tryggja að þjónustan sé aðgengileg verkkaupa að lágmarki 99% af tímanum í hverjum almanaksmánuði, með eftirfarandi undantekningum: (i) niðritími vegna aðgerðaleysis eða tæknilegra vandamála hjá verkkaupa; (ii) niðritími sem er fyrirfram skilgreindur og tilkynnt er um með a.m.k. einnar viku fyrirvara; (iii) niðritími vegna aðstæðna sem Moodup getur ekki haft áhrif á.
- Tæknileg aðstoð í gegnum tölvupóst og skilaboðakerfi er innifalin í þjónustunni. Eins er öll aðstoð sem stafar af tæknilegum vanköntum af hálfu Moodup innifalin. Önnur tæknileg aðstoð eða fræðsla, t.d. í gegnum síma, fjarfundi eða fundi, er samkvæmt verðskrá Moodup hverju sinni.
Verð og greiðsluskilmálar
- Moodup og verkkaupi hafa undirritað þjónustusamning þar sem fram kemur verð þjónustunnar og fjöldi starfsmanna sem er innifalinn. Verð fyrir aðra þjónustuþætti er samkvæmt verðskrá Moodup hverju sinni. Verðskráin er aðgengileg á moodup.is/verdskra.
- Moodup gefur út reikning í næsta almanaksmánuði á eftir þeim mánuði sem þjónusta er veitt í. Greiðslufrestur er til 15. dags sama almanaksmánaðar. Að því tímabili loknu ber krafan almenna dráttarvexti. Ef greiðsla hefur ekki borist 10 dögum eftir að greiðslufresti lýkur er Moodup heimilt að frysta þjónustuna eða segja upp þjónustusamningi þessum án fyrirvara, að því gefnu að skrifleg tilkynning þess efnis hafi verið send verkkaupa.
Uppsagnarákvæði
- Þjónustusamningur gildir frá dagsetningu undirritunar og þar til annar hvor samningsaðila segir honum upp. Uppsögn tekur gildi í lok almanaksmánaðar.
- Fyrstu 30 dagana frá dagsetningu undirritunar er enginn uppsagnarfrestur. Eftir það er uppsagnarfrestur þrír mánuðir frá því að uppsögn tekur gildi.
- Segja má upp þjónustusamningi án uppsagnarfrests ef annar hvor aðili: (i) vanefnir sínar skuldbindingar verulega og hefur ekki lagfært þær vanefndir innan 30 daga frá skriflegri tilkynningu gagnaðila; (ii) fer í greiðslustöðvun, fjárhagslega endurskipulagningu eða gjaldþrot.
Notkunarréttur
- Moodup veitir verkkaupa rétt til að nota hugbúnaðarþjónustuna svo lengi sem þjónustusamningur er í gildi. Verkkaupi skuldbindur sig til að veita ekki öðrum en starfsfólki sínu aðgang að þjónustunni.
- Báðir aðilar bera ábyrgð á því að útvega tilskilin leyfi og réttindi eftir atvikum til að uppfylla skyldur sínar samkvæmt þjónustusamningi.
- Verkkaupi staðfestir og bera ábyrgð á því að hafa tilskilin leyfi og réttindi til að geyma og vinna úr þeim gögnum sem eru send til Moodup samkvæmt þjónustusamningi.
Trúnaður
Aðilar skuldbinda sig til að virða trúnað með því að greina ekki þriðja aðila frá innihaldi þjónustusamnings eða upplýsingum sem þeir fá aðgang að hans vegna.
Persónuupplýsingar
- Til að uppfylla þjónustusamning mun Moodup vinna með gögn sem innihalda persónuupplýsingar fyrir hönd verkkaupa. Í slíkri meðhöndlun er verkkaupi ábyrgðaraðili og Moodup vinnsluaðili. Aðilar hafa því undirgengist vinnslusamning þar sem skilmálum þeirrar vinnslu er lýst.
- Persónuupplýsingar sem tilheyra verkkaupa verða meðhöndlaðar af Moodup í hlutverki þess sem vinnsluaðili. Öll slík meðhöndlun skal gerð í samræmi við lög og reglugerðir um persónuvernd.
- Moodup skal hafa persónuverndarstefnu sína aðgengilega hverjum sem er á gildistíma samningsins. Slóð á persónuverndarstefnuna er moodup.is/personuvernd
Undirverktakar
Aðilum er frjálst að nota verktaka eða undirverktaka til að höndla með upplýsingar sem þeir fá aðgang að vegna þjónustusamnings eftir því sem þörf krefur svo lengi sem viðkomandi aðilar skuldbinda sig til að virða ákvæði um trúnað, persónuvernd og meðhöndlun persónuupplýsinga með sama hætti og samningsaðilar.
Breytingar á skilmálum
- Moodup áskilur sér rétt til að breyta skilmálum þessum en skal þó tilkynna um það með a.m.k. 15 daga fyrirvara. Moodup skal tilkynna verkkaupa um breytingar á skilmálunum með tölvupósti og með því að gera nýju skilmálana aðgengilega á moodup.is/skilmalar.
- Hafni verkkaupi ekki breytingu á skilmálunum innan 15 daga frá því að hann fékk um það tilkynningu með tölvupósti samþykkir verkkaupi hina breyttu skilmála. Hafni verkkaupi hinum breyttu skilmálum innan framangreinds tímabils telst sú höfnum jafngilda uppsögn á samningnum samkvæmt fyrrnefndum ákvæðum og gilda á uppsagnartímabili þeir skilmálar sem síðast voru í gildi milli aðila með samþykki beggja.
- Í skilmálum þessum skal koma fram hvenær þeim var síðast breytt. Skilmálum þessum var síðast breytt þann 19. mars 2022.